Nýtt í Moodle / New things in Moodle

Kristbjörg Olsen Moodle-fréttir, Uppfærslur, Verkfæri í Moodle

Neðangreind verkfæri (viðbætur) voru sett upp í Moodle í vor.

H5P

H5P er viðbót sem inniheldur ýmis verkfæri m.a. til að búa til gagnvirkt vídeó, tímalínu o.fl. Nokkur sýnidæmi hafa verið sett upp með H5P sem gefa hugmynd um eitthvað af því sem verkfærið býður upp á. Sýnidæmin er að finna á vefnum Verkfærin í Moodle. Til að skoða sýnidæmin sem nemandi þarf að smella á hlekkinn „Innritaðu mig í þetta námskeið“ efst á síðunni.

Leiðbeiningar og fleiri sýnishorn af því sem hægt er að gera með H5P má skoða á vef H5P: https://h5p.org/documentation/for-authors/tutorials

Til að setja upp hluti með H5P er farið í +Nýtt viðfangsefni eða aðföng, H5P Interactive content valið og síðan valin tegund atriðis úr listanum Select content type.

Realtime quiz

„Realtime quiz“ er ætlað til notkunar í kennslustund. Kennari setur upp fjölvalsspurningu (eða spurningar). Eftir að kennari birtir spurningu fá nemendur 30 sekúndur til að svara (mögulegt er að breyta þeim tíma).

Á milli spurninga er rétt svar sýnt, hversu margir völdu hvern svarlið, ásamt einfaldri tölfræði.  Þetta gefur þátttakendum tækifæri til umræðna um spurningu áður en haldið er áfram.

Kennari getur farið yfir svör nemenda eftir að kennslustund lýkur til að skoða hvort þörf er á að fara betur yfir ákveðna námsþætti.

Vídeó sem sýnir „Real time Quiz“: https://www.youtube.com/watch?time_continue=8&v=VwCwBstM_fQ  Í vídeóinu er notuð eldri útgáfa af Moodle en meginatriði eru þó eins og í núverandi útgáfu HÍ-Moodle.

Til að setja upp „realtime quiz“ er farið í +Nýtt viðfangsefni eða aðföng.

„Gapfill“ spurningagerð

Um er að ræða spurningagerð til notkunar í prófum, þar sem nemandinn fyllir út í eyður í texta. Kennari getur valið úr þremur kostum:

  • að hafa bil sem nemandi skrifar í
  • fellilista sem nemandi velur úr
  • orð sem nemandi dregur á réttan stað í texta.

Í uppsetningu spurningar er rétta orðið/orðin sett í hornklofa. Boðið er upp á nokkra fleiri stillingarmöguleika. Nánari upplýsingar á moodle.org: https://docs.moodle.org/35/en/Gapfill_question_type

Hægt er að prófa „gapfill“ spurningagerðina með því að búa til spurningu í spurningabanka námskeiðs og forskoða.

„Grid format“ fyrir framsetningu kennsluvefs

grid format uppsetning á kennsluvef

Kennsluvefur með grid format framsetningu.

Nýjum möguleika í framsetningu kennsluvefs, „grid format“, hefur verið bætt í Moodle. Þegar kennsluvefur er stilltur á „grid format“ eru vikur (þættir) kennsluvefsins sýndar sem reitir. Mögulegt er að setja myndir í reitina (sjá mynd fyrir ofan). Þegar smellt er á reit fyrir viku opnast gluggi með með viðfangsefnum vikunnar. „Grid format“ minnkar þörf á skrolli og gerir kennsluvefinn stílhreinni. Nánari upplýsingar á moodle.org: https://moodle.org/plugins/format_grid

Til að prófa „grid format“ uppsetningu á kennsluvef er farið í uppsetningu undir umsýslu námskeiðs og uppsetningin valin undir liðnum framsetning.

Piazza

Piazza er verkfæri til að setja upp umræður á neti. Einhverjir kennarar HÍ þekkja Piazza og hafa notað það á vef piazza.com. Piazza virkar nú sem hluti af Moodle.

Til að setja upp umræðu með Piazza er farið í +Nýtt viðfangsefni eða aðföng, valið útvær verkfæri og Piazza valið við Preconfigured tool.

Viðbætur í ritilinn

Eftirfarandi nýjum hnöppum hefur verið bætt í ritilinn:

  • „Record audio“ og „Record vido“ til að taka upp hljóð og mynd. Lengd upptöku getur að hámarki verið tvær mínútur. Upptökuhnappar eru ekki alls staðar í Moodle, þeir koma t.d. ekki fram í endurgjöf skilaverkefna, a.m.k. ekki ennþá.
  • „Import Word file“ er til að flytja inn í Moodle innihald í docx skrá (ekki skrána sjálfa). Moodle hermir eftir mótun í Word skránni s.s. fyrirsögnum, feitletrun, setur inn töflur o.s.frv. Nánari upplýsingar um viðbótina má sjá hér: https://moodle.org/plugins/atto_wordimport
  • „Word count“ er til að kanna orðafjölda og stafafjölda í texta. Nánari upplýsingar: https://moodle.org/plugins/atto_count
  • „Horizontal rule“ er hnappur til að setja inn lárétta línu t.d. til að afmarka efni. Línan stækkar og minnkar miðað við skjástærð notanda.
  • Fleiri leturlitum hefur verið bætt í ritilinn auk þess sem notendur geta valið eigin liti. Athugið þó að í bestu venjum í uppsetningu kennsluvefs er varað við að nota marga liti í letur á sömu síðu, þar sem það dregur athygli lesanda frá innihaldi efnis (cognitive overload). Oft er miðað við að hafa ekki fleiri en þrjá leturliti á síðu.

    *Athugið að ofangreint gildir fyrir Atto ritilinn sem er sjálfvalinn í Moodle en ekki ef notandi hefur skipt um ritil hjá sér.