Uppfærsla á Moodle / Moodle upgrade

Kristbjörg Olsen Uppfærslur

HÍ-Moodle var uppfært úr útgáfu 3.3 í 3.5 sl. mánudag hjá Upplýsingatæknisviði. Því miður gekk uppfærslan ekki sem skyldi og komið hefur í ljós að endurstilla þarf kennsluvefi sumra námskeiða. Þetta sést m.a. á því að efni virðist vanta á kennsluvef eða allt efni hans er í efsta hlutanum. Vinsamlegast sendið póst sem fyrst á moodle@hi.is ef svo er eða ef eitthvað annað er ekki eins og það er venjulega í Moodle.

Breytingar í Moodle

Ýmsar breytingar hafa orðið á Moodle bæði í útgáfu 3.4 og 3.5. Hér fyrir neðan eru taldar upp þær helstu sem snúa að nemendum og kennurum. Einnig má skoða vídeó neðar á síðunni sem sýna helstu breytingar í hvorri útgáfu fyrir sig.

  • Í dagatali er nú hægt að draga til atburði. Ef t.d. verkefnaskil eru dregin á nýjan dag uppfærast stillingar verkefnisins samstundis. Einnig er flokkun atburða s.s. fyrir einstakling, hóp og námskeið litamerkt í dagatalinu.
  • Síum hefur verið bætt í nemendalista kennsluvefs t.d. er hægt að kalla fram nemendur sem hafa verið óvirkir á kennsluvefnum í ákveðin tíma.
  • Leiðarkerfi kennsluvefs hefur verið bætt. Þegar viðfangsefni er opnað t.d. verkefni eru tenglar til beggja hliða neðst á síðunni sem leiða notanda á fyrra viðfangsefni eða það næsta í röðinni. Fyrir miðju neðst á síðunni er fellilisti þar sem hægt er að komast í hvaða viðfangsefni sem er á kennsluvefnum.
  • Í uppsetningu á skilaverkefni og verkstæði getur kennari merkt við leyfilegar skráargerðir í lista.
  • Í skráningu vinnuskila getur kennari merkt við að viðfangsefni sé lokið eða ólokið hjá nemanda þó að skilyrðum sé ekki fullnægt. T.d. ef umræða er skilgreind sem lokið af hálfu nemanda eftir að hann hefur skrifað eitt innlegg en síðar kemur í ljós að innleggið er ekki viðunandi, þá getur kennari yfirskrifað og merkt sem ólokið. Einnig getur kennari merkt við að viðfangsefni sé lokið fyrir hönd nemanda.
  • Námskeið koma fram með mynd á stjórnborði notanda. Kennarar geta sett inn mynd fyrir námskeið með því að fara í uppsetningu undir umsýslu námskeiðs.
  • Í spurningabanka námskeiðs er hægt að setja tögg á spurningar. Þetta auðveldar kennara að kalla fram þær spurningar sem leitað er að.
  • Möguleika til að taka upp hljóð og vídeó hefur verið bætt í Atto ritilinn sem er sjálfvalinn í Moodle. Nemendur og kennarar geta með því sett upptöku í námsefni og skil.
  • Kennari getur hlaðið upp skrá til nemanda þegar farið er yfir ritgerðarspurningu í prófi.

Vídeó sem sýnir breytingarnar

Athugið! Það sem sagt er um innritun nemenda í námskeið eða úrskráningu á ekki við hjá HÍ þar sem skráning nemenda í námskeið er beintengd við Uglu.