Hugleiðingar um nýtt námsumsjónarkerfi

Kristbjörg Olsen Moodle ýmislegt, Moodle-fréttir

Til stendur að taka upp nýtt námsumsjónarkerfi hjá Háskóla Íslands. Faghópur um námsumsjónarkerfi var skipaður í haust og kynning haldin á málinu á vegum Upplýsingatæknisviðs og Kennslusviðs. Nýja námsumsjónarkerfið á að fylgja alþjóðlegum stöðlum í gerð slíkra kerfa en það býður m.a. upp á tengingar við annan hugbúnað sem notar sömu staðla. Kerfið á að hýsa hjá seljanda eða sérhæfðum þjónustuaðila. Ekki er ljóst á þessari stundu hvaða námsumsjónarkerfi verður fyrir valinu né nákvæmlega hvenær það verður komið í loftið. Gera má ráð fyrir að innleiðing taki nokkur misseri, jafnvel tvö til þrjú ár frá því að kerfið er komið upp og þar til öll námskeið háskólans hafa tekið það í notkun.

Örlítið um sögu námsumsjónarkerfa innan HÍ
Kennarar hafa haft aðgang að námsumsjónarkerfi í gegnum Kennslumiðstöð, frá hausti 2006 að Moodle en þar áður að WebCt. Einnig var norska kerfið It‘s learning til prufu kennsluárið 2004-2005 en það þótti of dýrt og Kennslumiðstöð hafði ekki fjárhagslegt bolmagn til halda áfram með það. Á vegum Kennslumiðstöðvar hafa reglulega verið haldnar kynningar og stutt námskeið um Moodle, auk þess sem kennarar hafa getað leitað til starfsfólks miðstöðvarinnar eftir aðstoð og ráðgjöf.
Moodle hefur þó aldrei verið innleitt hjá HÍ, utan hjá Menntavísindasviði. Í Kennaraháskólanum var löng hefð fyrir notkun námsumsjónarkerfis. Skömmu eftir sameiningu KHÍ og HÍ var tekin ákvörðun á Menntavísindasviði um að taka upp Moodle í stað Blackboard kerfisins sem þau notuðu á þeim tíma. Kennslumiðstöð aðstoðaði starfsfólk MVS við innleiðingu kerfisins m.a. með því að halda kynningar á Moodle og bjóða upp á námskeið fyrir kennara.

Hvers vegna nýtt námsumsjónarkerfi?

Hvers vegna ekki að nota bara Uglu og Moodle eða annað hvort kerfið? Í stuttu máli býður kennsluvefur Uglu ekki upp á þau tól og tæki sem nútíma kennsluumhverfi krefst. Rétt þótti að skoða kerfi á markaðnum, fara í útboð og finna það kerfi sem passar Háskóla Íslands hvað best. Eftirgreindir eru nokkrir kostir þess að taka í notkun námsumsjónarkerfi:

 • Notkun námsumsjónarkerfis er í takt við nútímann og rímar við stefnu Háskóla Íslands. Námsumsjónarkerfi býður upp á úrval rafrænna verkfæra sem auka svigrúm kennara til að þróa kennsluhætti sína. Það gefur einnig öfluga umgjörð utan um námskeið í heild.
  Í „Stefnu Háskóla Íslands um gæði náms og kennslu 2018-2021- aðgerðaáætlun til þriggja ára“ segir: „Markviss stuðningur við notkun upplýsingatækni í kennslu og þróun kennsluumhverfis. Mikilvægt er að kennsluumhverfi og umgjörð kennslu sé styðjandi en skapi ekki óþarfa þröskulda. Sérstaklega skiptir máli að taka mið af þróun upplýsingatækni og hvernig hægt er að veita kennurum stuðning í að nýta upplýsingatækni í kennslu til að styðja við nám og mæta þörfum nemenda. Meðal annars þarf að koma til móts við óskir nemenda um aðgengi að rafrænu kennsluefni (s.s. upptökum) án þess að vegið sé að gæðum kennslu eða samskiptum nemenda og kennara.“ og „Einnig er mikilvægt að nýta upplýsingatækni til kennslu, t.d. öflugt námsumsjónarkerfi, til að auka þátttöku nemenda í námi, efla gæði samskipta nemenda og kennara og bæta endurgjöf til nemenda.“ https://ugla.hi.is/kerfi/view/page.php?sid=1753
 • Námsumsjónarkerfi bjóða upp á framsækin verkfæri m.a. til að efla endurgjöf til nemenda og til að efla þátttöku þeirra. Þetta á sérstaklega við þau kerfi sem notuð eru á æðra menntunarstigi.
 • Með notkun námsumsjónarkerfis nær kennari vel til nemenda í rafrænu umhverfi. Nemandinn hefur aðgang að gögnum námskeiðs í gegnum tilheyrandi app, fær tilkynningar um verkefnaskil o.fl. í gegnum appið. Í Moodle spurningakönnun í janúar 2018 kom fram að nemendur HÍ nota snjallsíma í auknum mæli í tengslum við námið. https://kennslumidstod.hi.is/moodle-konnun/nidurstodur-krossaspurninga/
 • Öll námskeið háskólans munu eignast vef í sama kerfi sem skilar sér í samræmdu viðmóti námskeiðsvefja. Skil á verkefnum,  innlegg í umræður eða aðgangur að upptökum mun líta eins út og virka á sambærilegan hátt í öllum námskeiðum.
 • Annan hugbúnað (eða kerfi) sem notaður er í tengslum við nám og kennslu, þarf einungis að tengja við eitt námsumsjónarkerfi en ekki tvö kerfi líkt og nú. Aðgangur notenda að þeim hugbúnaði verður því eins hjá öllum. Til stendur að tengja það námsumsjónarkerfi sem verður fyrir valinu við Turnitin, Panopto, Office 365 og jafnvel fleiri kerfi eins og Inspera prófakerfið og að sjálfsögðu Uglu.
 • Námsumsjónarkerfi gerir aðgengi að rafrænum greinasöfnum einfaldara, með tengingu kerfisins við rafrænar gagnaveitur.
 • Námsumsjónarkerfi veitir stjórnendum skólans aðgang að mikilvægum gögnum þar sem kerfið felur í sér möguleika á að taka saman skýrslur og samantektir s.s. „students at risk of dropping out“ o.fl.
 • Með því að nota námsumsjónarkerfi sem er sterkt á alþjóðlegum markaði og margir háskólar nota fær háskólinn aðgang að öflugu samfélagi notenda og að þjónustu sérfræðinga í kerfinu.
 • Samlegðaráhrif þekkingar aukast þegar sama kerfi er notað í öllum námskeiðum. Þetta eflir samfélag notenda kerfisins innan HÍ og eykur vinnuhagræði.

Núverandi fyrirkomulag – Tvö kerfi fyrir kennsluvefi námskeiða

Það fyrirkomulag að nota tvö kerfi (Uglu og Moodle) fyrir kennsluvefi námskeiða, eins og nú er gert, vinnur á móti góðu vinnulagi, er ekki notendavænt og hefur orsakað tæknilega hnökra hjá notendum.

 • Nemendur þurfa að nota tvö kerfi til að henda reiður á námskeiðsgögnum, verkefnaskilum, umræðum, prófum og öðru sem við kemur náminu.
 • Í sumum námskeiðum er notaður Moodle vefur, í öðrum kennsluvefur Uglu og í enn öðrum notar kennari bæði Uglu og Moodle vef í sama námskeiði. Málin flækjast svo enn frekar þegar litið er til annarra kerfa sem tengd eru við þau tvö fyrrnefndu eða ekki tengd, eftir atvikum.
 • Panopto upptökukerfið er tengt annars vegar við Uglu og hins vegar við Moodle. Notendur lenda ítrekað í vanda við innskráningu í Panpoto vegna þessa, þegar þeir eru að skrá sig inn í Panopto Uglu megin og/eða Moodle megin.
 • Turnitin hugbúnaðurinn vegna akademískra skrifa er tengdur við Moodle og virkar sem hluti af kerfinu en þeir kennarar sem nota Uglu þurfa að fara í gegnum vef turnitin.com, stofna þar námskeið og notendur, sem er tafsamari leið.
 • Það gefur auga leið að núverandi fyrirkomulag gerir stoðþjónustu einnig flóknari. Tæknilegt landslag kennslu kemur ekki til með að dragast saman í framtíðinni, þess vegna er áríðandi að finna einfaldar lausnir.

Kennsluvefur Uglu hefur ekki verið þróaður um langa hríð. Það væri bæði dýrt og tímafrekt að þróa hann svo hann stæði jafnfætis námsumsjónarkerfum á alþjóðlegum markaði. Til þess skortir enda fjármagn og mannskap/forritara. Aukin heldur er fjöldi slíkra kerfa til nú þegar, sem háskólar um allan heim nota.

Í faghópi rektors um námsumsjónarkerfi var rætt að þegar innleiðingu á nýju námsumsjónarkerfi lýkur muni kennsluvefshluta Uglu verða lokað hjá HÍ. Ugla verður vitanlega áfram innri vefur Háskóla Íslands með öllum þeim undirkerfum sem þar eiga heima, einungis kennsluvefnum verður lokað sem þýðir að námskeið eignast ekki áfram vef í Uglu. Þó má gera ráð fyrir að notendur hafi áfram aðgang að kennsluvefjum námskeiða sem þeir hafa lokið, a.m.k. í einhvern tíma.

Verkefni framundan

Upptöku námsumsjónarkerfis fylgja margvísleg verkefni. Það þarf að kortleggja innleiðingu kerfisins, ferli hennar, hraða og tímasetningar hinna ýmsu verka og finna út hver á að vinna verkin, eða ráða fólk, eftir atvikum. Dæmi um verk sem þarf að vinna og tengdar spurningar sem vakna.

Tengja
Tengja námsumsjónarkerfið við Uglu, notendagagnagrunninn og hugsanlega kennslukönnun, kennsluskrá og stundaskrár. Einnig þarf að tengja við önnur kerfi sem eru/verða notuð í námi og kennslu s.s. Panopto, Turnitin, Inspera, Office365 og e.t.v. einhverjar gagnaveitur fræðigreina. Þessu fylgja prófanir á virkni og lausn vandamála sem upp kunna að koma.

Hanna
Hanna viðmót kerfisins og námskeiðsvefja í samvinnu við seljanda kerfisins. Skoða kröfur varðandi útlit eða uppsetningu kennsluvefja. Hvað þarf að vera þar og hvar?
Hanna viðmiðunarramma fyrir kennsluvef námskeiðs þar sem tiltekið er hvað skuli ávallt vera til staðar.

Stofna og flytja
Stofna námskeið háskólans í nýja kerfinu og flytja í þau námskeiðsgögn úr kennsluvef Uglu og Moodle. Þessu fylgir að finna lausnir í nýja kerfinu fyrir það sem ekki er hægt að flytja s.s. fagorðalista í Moodle og sérstakar verkefnisgerðir s.s. kennslustund og verkstæði.

Flokka
Samhliða stofnun námskeiða í kerfinu þarf að huga að flokkun þeirra undir fræðasvið, deildir, og e.t.v. námsleiðir (kjörsvið?) og svo kennsluár.

Þjálfa
Þjálfa starfsfólks sem sér um innleiðingu kerfisins og þeirra sem koma til með að sinna notendaþjónustu, þjálfun og kennara og nemenda. Að einhverju leyti er þetta þjálfun sem seljandi veitir.

Skipuleggja
Skipuleggja notendaþjónustu vegna kerfisins og hugsanlega endurskipuleggja notendaþjónustu vegna annarra tengdra kerfa. Munu fræðasvið eða deildir að einhverju leyti bera ábyrgð á notendaþjónustu?

Búa til
Búa til leiðbeiningar, námskeið og kynningar um kerfið og/eða vísa á leiðbeiningar seljanda kerfis, eftir atvikum. Hér er upplagt að líta til annarra háskóla sem nota e.t.v. sama námsumsjónarkerfi og skoða hvernig staðið er að stuðningi við nemendur og kennara þar.
Útbúa algengar spurningar og svör lista (FAQ) fyrir þjónustuborð.

Prófa
Prófa og fínstilla þær skýrslur sem á að vera hægt að ná úr kerfinu eða verða til sjálfkrafa.
Prófa verkfæri og aðgerðir sem nemendur og kennarar nota, sérstaklega það sem hvað mest er notað í Moodle og Uglu.
Kortleggja ólíka möguleika á endurgjöf til nemenda í kerfinu.

Skrifa
Skrifa „Privacy statement“ sem notendur samþykkja við innskráningu.

Þýða
Krafa um að námsumsjónarkerfið bjóði upp á íslenskt viðmót kostar að öllum líkindum einhverja þýðingarvinnu og/eða leiðréttingar, bæði í upphafi og eftir því sem kerfið þróast. Þýða þarf hver textaskilaboð sem kerfið gefur við hin ýmsu tækifæri og taka  mið af því samhengi sem þau birtast í. Beinar þýðingar virka ekki og geta orsakað misskilning. Íslenskan gerir hlutina flóknari en ella. Kyn, tala og fall hafa áhrif á á önnur orð í samhenginu.

Ákveða og finna leiðir

 • Hver verður slóð kerfisins?
 • Á að gefa kerfinu íslenskt nafn, e.t.v. stofna til nafnasamkeppni?
 • Hvernig verður innskráningu í kerfið háttað? Verður hún í gegnum Uglu með „single sign on“?
 • Mun kennsluvefur stofnast sjálfvirkt í kerfinu t.d. um leið og námskeið er stofnað í Uglu eða þarf að stofna kennsluvefi handvirkt á hverju misseri?
 • Hvernig verður mörgum námskeiðum (t.d. námskeiðum vegna lokaverkefna) veittur sameiginlegur kennsluvefur í nýja kerfinu?
 • Verður hægt að veita notendum án hi-netfangs aðgang að kerfinu? Vefur í námsumsjónarkerfi nýtist nefnilega vel til að halda utan um samstarf ýmis konar t.d. við aðra háskóla? Einnig kemur fyrir að námskeið eru samkennd með öðrum háskólum.
 • Hve lengi eiga nemendur og kennarar Háskóla Íslands að hafa aðgang að eldri kennsluvefjum Uglu og Moodle?
 • „Í loftið dagsetning“.
 • Hvenær má gera ráð fyrir að öll námskeið skólans verði komin í nýja kerfið?

Upplýsa
Á meðan á öllu stendur þarf, geri ég ráð fyrir, að upplýsa tilvonandi notendur jafnóðum, tilkynna um næstu áfanga og skref. Til þess hefur háskólinn margar leiðir s.s. tilkynningar og fréttir í Uglu, vefina hi.is, uts.hi og kennslumidstod.hi.is og upplýsingaskjái í almenningsrými. Einnig væri hægt að setja upp sérstaka vefsíðu um verkefnið, gefa út „online“ tímarit og hanna og dreifa plakötum.

Ýmislegt fleira mætti telja til en hér læt ég staðar numið.